Ávarp bæjarstjóra

Fjallabyggð ýtir nú úr vör afar metnaðarfullu þriggja ára samstarfsverkefni sem ber heitið Hátindur 60+. Áherslur verkefnisins miða sérstaklega að auknum lífsgæðum íbúa sveitarfélagsins sem náð hafa sextugsaldri. Það eru forréttindi að fá að eldast, njóta lífsins með sínum nánustu og vera virkur í uppbyggjandi samfélagi sem mætir vel þörfum íbúa.

Í Fjallabyggð viljum við auka lífsgæði íbúa m.a. með því að stuðla að góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu. Meðal markmiða Hátinds 60+ er aukinn sveigjanleiki í þjónustu, fjölbreyttari afþreyingarmöguleikar og síðast en ekki síst að hámarka hamingjuna á hátindi lífsins.


Sigríður Ingvarsdóttir,
bæjarstjóri Fjallabyggðar