Landsmót UMFÍ 50+ fór fram með glæsibrag í Fjallabyggð um helgina, þar sem um 350 keppendur komu saman víðsvegar að af landinu til að taka þátt í fjölbreyttum keppnisgreinum. Mótið var sannkölluð veisla fyrir líkama og sál, og skein gleðin úr hverju andliti.
Keppt var í 14 greinum og fjölmargir þátttakendur komu úr heimabyggð, sem gerði mótið sérstaklega eftirminnilegt fyrir heimamenn. Fjallabyggð tók vel á móti gestum, og var sannur heiður að fá að vera gestgjafi að þessu sinni. Það var ótrúlega gaman að sjá þann kraft, vilja og jákvæðni sem einkenndi þátttakendur, sem eru sannar fyrirmyndir fyrir yngra fólk. Það er óhætt að segja að margir hafi farið heim með bros á vör. það er greinilegt að það er eitthvað til að hlakka til þegar komið er á keppnisaldur.
Mótið hófst á hátíðlegri setningu þar sem forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, heiðraði mótsgesti með nærveru sinni. Í ræðu sinni lagði hún áherslu á mikilvægi hreyfingar, samveru og gleði og minnti okkur öll á að aldrei sé of seint að leika sér. Orð hennar féllu í góðan jarðveg og endurspegluðu anda mótsins.
Slíkt stórmót hefði þó aldrei orðið að veruleika nema fyrir ómetanlegt framlag fjölda sjálfboðaliða sem lögðu sitt af mörkum til að halda utan um mótið. Þeim ber sérstaklega að þakka fyrir dugnað, elju og jákvætt viðmót, þeir gerðu mótið að því sem það var.
Við óskum öllum keppendum og aðstandendum til hamingju með vel heppnað mót og hlökkum til næsta Landsmóts sem haldið verður í Hrafnagilshverfi í Eyjafirði sumarið 2026.
Myndir frá mótinu