Háskóli þriðja æviskeiðsins

Mánudaginn 15. maí sl. komu þær stöllur Birna Sigurjónsdóttir og Hjördís Hendriksdóttir frá U3A Reykjavík eða Háskóla þriðja æviskeiðsins til okkar í Tjarnaborg og kynntu starfsemi og viðburði á vegum U3A. Kynningin var mjög fræðandi og greinilegt að þar er unnið mikilvægt og metnaðarfullt starf. Gaman er að segja frá því að hópur eldra fólks frá Alicante á Spáni höfðu nýlega komið til þeirra sem skiptinemar í gegnum Erasmus+ prógrammið. U3A eða Háskóli þriðja æviskeiðsins hefur það markmið að stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegu framboði af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Einnig vilja samtökin stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir og að efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum.

Það má nálgast allar upplýsingar um starfsemina inna á www.u3a.is