Hátindur 60+ í alþjóðlegu samstarfi um heilbrigði og sjálfsumönnun í dreifðum byggðum

Verkefnastjóri Hátinds 60+ í Fjallabyggð tók nýverið þátt í vettvangsferð SelfCare-verkefnisins sem haldin var dagana 6.–8. maí í Saxnäs í suðurhluta Lapplands í Svíþjóð. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu samstarfi sem miðar að því að efla sjálfsumönnun og bætt aðgengi að heilsu- og velferðarþjónustu í strjálbýli. Með í ferðinni voru samstarfsaðilar frá háskólanum í Limerick á Írlandi, Region Västerbotten – Centre for Rural Medicine í Svíþjóð, Veltek og Háskólanum á Akureyri.

Ferðin til Saxnäs reyndist afar lærdómsrík. Þátttakendur fengu einstakt tækifæri til að fræðast um menningu og lifnaðarhætti Sama og skoða hvernig sérstakar þarfir minnihlutahópa geta haft áhrif á skipulag og framkvæmd velferðarþjónustu. Þá voru einnig ræddar nýjar leiðir til að efla notendamiðaða nálgun og bætt samskipti til sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana.

Fyrir Hátind 60+ og Fjallabyggð er þátttakan mikilvægur liður í því að sækja þekkingu, styrkja alþjóðlegt tengslanet og flytja inn nýjar hugmyndir sem geta nýst í þróun heimaþjónustu og stuðningsúrræða fyrir eldra fólk á svæðinu. Ferðin undirstrikaði mikilvægi menningarskilnings, sveigjanlegrar þjónustu og valdeflingar íbúa sem lykilþátta í mótun sjálfbærra lausna í velferðarmálum.

     

 

   SelfCare