Skráning hafin á Landsmót UMFÍ 50+ í Fjallabyggð – Fjölbreytt dagskrá fyrir alla!
Búið er að opna fyrir skráningu á Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer dagana 27.–29. júní næstkomandi hér í Fjallabyggð. Mótið er ætlað öllum 50 ára og eldri og býður upp á fjölbreyttar keppnisgreinar í einstaklings- og hópíþróttum. Það er hvorki skilyrði að vera í íþróttafélagi né hafa keppt áður. Mótið snýst um hreyfingu, gleði og samveru.
Við hvetjum sem flesta til að skrá sig til leiks og upplifa þessa einstöku hátíð þar sem hreyfing, heilsa og gleði eru í brennidepli.
Auk keppnisgreinanna verður fjölbreytt og lífleg dagskrá á mótssvæðinu alla helgina, tónlist, kynningar og skemmtilegir viðburðir sem eru opnir öllum, óháð aldri. Þetta er einstakt tækifæri fyrir heimafólk og gesti til að hittast, njóta og upplifa Fjallabyggð á nýjan hátt.
Dagskrá, skráning og allar nánari upplýsingar má finna á www.umfi.is.
Við hlökkum til að sjá ykkur!